Innlent

Segir Sjálfstæðisflokkinn traðka á lýðræðinu

Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að Sjálfstæðisflokkurinn sé að traðka á lýðræðinu og hafi ekki þjóðarhagsmuni að leiðarljósi heldur sérhagsmuni í tengslum við stjórnarskrármálið. Hún segir flokkinn koma í veg fyrir að auðlindirnar verði í þjóðareign og að fólk fái sjálft að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Bjarni Benediktsson formaður Sjálsfstæðisflokksins segir þetta alrangt. Óljóst er hvenær þinglok verða.

Þetta kom fram í máli þeirra í fréttum Sjónvarpsins nú í kvöld. Aðspurður hvort Sjálfstæðisflokkurinn væri að ganga erinda sægreifa sagði Bjarni það fjarri lagi.

„Við erum ekki að ganga erinda sægreifa með okkar tillögum. Það hefur ekki verið mikill samningsvilji í þessu máli. Þessar auðlindar verða í þjóðareign og þær eru í þjóðareign, en þjóðareignarhugtakið eins og það er í stjórnarskránni er umdeilt," sagði Bjarni.

Jóhanna sagði í kjölfarið að hringlandahátturinn í Sjálfstæðisflokknum hefði verið ótrúlegur síðan í morgun. Opnað hefði verið á þær tillögur að auðlindarnar yrðu ekki varanlega í þjóðareign.

„Ég bið Sjálfstæðisflokkinn þegar við förum í umræður um þessi mál að ljúka því sem fyrst svo við getum tekist á um það í atkvæðagreiðslu," sagði Jóhanna.

Hún sagði óljóst hvenær þinglok yrðu en vonaði að Sjálfstæðisflokkurinn sæi sóma sinn í því fyrir hönd þjóðarinnar að takast á um þessar tillögur í atkvæðagreiðslum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×