Íslenski boltinn

Höskuldur: Vil vera betri pabbi en fótboltamaður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Höskuldur Eiríksson, til vinstri, fagnar Íslandsmeistaratitli FH í fyrra.
Höskuldur Eiríksson, til vinstri, fagnar Íslandsmeistaratitli FH í fyrra. Mynd/E. Stefán

Höskuldur Eiríksson segir að þrálát meiðsli hafi endanlega bundið enda á feril hans sem knattspyrnumaður.

Höskuldur gekk í raðir KR nú í vetur en náði ekki að spila með félaginu í Pepsi-deildinni nú í vor vegna meiðsla. Hann segir að ákvörðunin um að hætta hafi ekki verið svo erfið.

„Bæði og. Þetta er jú stór ákvörðun enda er ég búinn að vera í fótbolta lengi og haft gaman af því. En það var allt sem var að benda mér í þessa átt," sagði Höskuldur í samtali við Vísi í dag.

„Auk þess að ég er búinn að vera að glíma við meiðsli þá er ég í krefjandi starfi sem lögmaður auk þess sem ég á tvær stelpur og þriðja barnið er á leiðinni," sagði hann. „Á meðan að ég er ekki að ná að uppfylla þann metnað sem ég hef fyrir knattspyrnunni þá er þetta ekki lengur að borga sig."

Höskuldur ólst upp hjá KR og var hjá félaginu til ársins 2002. Hann var lánaður bæði til Fjölnis og ÍR til skamms tíma en gekk svo í raðir Víkings fyrir tímabilið 2003. Þar var hann lykilmaður í fjögur ár og um tíma fyrirliði liðsins.

Árið 2007 var hann svo lánaður til Viking í Noregi en hann náði ekkert að spila með liðinu vegna meiðsla. „Það tímabil var skelfing. Ég meiddist ítrekað í Noregi og þurfti að fara á tvær aðgerðir, eina og hné og aðra á ökkla," sagði Höskuldur. Hann sneri aftur til Víkings og kláraði tímabilið með liðinu sem féll úr úrvalsdeildinni um haustið.

Hann varð svo Íslandsmeistari með FH í fyrra en náði aðeins að spila með liðinu í sjö leikjum allt tímabilið. „Ég náði mér ekki jafn vel á strik hjá FH og ég vildi gera. Ég náði ágætum kafla en á endanum gaf líkaminn sig. Þegar ég var að hætta í FH var ég orðinn langþreyttur á þessu en vildi gefa mér eitt lokatækifæri til að vinna í mínum málum. Ég vildi athuga hvort ég gæti komið mér í almennilegt standa og finna bæði gleðina og ánægjuna í knattspyrnunni á ný. En það bara gekk ekki upp, því miður."

Undir lok tímabilsins í fyrra meiddist Höskuldur í baki og segir hann að þegar þau meiðsli tóku sig upp í vor hafi það verið kornið sem fyllti mælinn.

„Ég vann mikið í því í vetur að styrkja bakið og var það ekki að angra mig fyrr en ég fann fyrir því á ný um daginn. Það eru svo sem ekki meiðsli sem binda endi á ferilinn enda er ég fínn núna og gæti farið á æfingu á eftir. En ég hef fundið fyrir því að þegar ég er að koma mér í form þá kemur alltaf eitthvað upp. Þá fara meiðslin að ganga í hringi og það bara gengur ekki til lengdar."

„Ég þarf greinilega að vera í sjúkraþjálfun og taka aukaæfingar reglulega til að styrkja bakið. Ég hef hvorki tíma í það né heldur finnst mér ekki nógu gaman í þessu til að það sé þess virði að ganga í gegnum það ferli."

Hann segir þó ólíklegt að hann muni endurskoða ákvörðun sína á næstu árum. „Mér finnst það afskaplega ósennilegt. Starfið býður ekki upp á það og þá er þriðja barnið á leiðinni. Ég hef meiri metnað fyrir því að vera góður pabbi en góður fótboltamaður."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×