Innlent

Ágúst Ólafur sækist ekki eftir endurkjöri til Alþingis

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður og varaformaður Samfylkingarinnar,sendi frá sér fréttatilkynningu fyrir skömmu þar sem hann lýsir því yfir að hann muni ekki sækjast eftir endurkjöri til Alþingis í kosningum í vor og jafnframt láta af embætti varaformanns flokksins á næsta landsfundi.

Tilkynning Ágústs Ólafs er svo hljóðandi:

"Nýliðna helgi ræddi ég við formann Samfylkingarinnar og skýrði henni frá því að ég hygðist ekki sækjast eftir endurkjöri til Alþingis í kosningunum í vor. Af þeirri ástæðu greindi ég henni jafnframt frá því að ég myndi ekki sækjast eftir ráðherraembætti vegna þeirra breytinga sem fyrir lágu. Við áttum gott samtal og vorum sammála um að rétt væri að bíða með að tilkynna um ákvörðun mína, þar til niðurstaða væri fengin um það hvort ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks yrði framhaldið. Á þeim tímapunkti var enn ekki ljóst hver niðurstaðan yrði í þeim efnum. Nú liggur það fyrir og tel ég því rétt að greina frá þessari ákvörðun minni.

Ákvörðun af þessum toga á sér auðvitað nokkurn aðdraganda. En þegar sú staða kom upp að þingkosningum yrði flýtt og að framundan væri nýtt fjögurra ára kjörtímabil, var ekki hjá því komist að við hjónin gerðum upp hug okkar til framtíðarinnar. Við höfum um nokkra hríð haft hug á því að halda utan í framhaldsnám og höfðum við upphaflega ráðgert að söðla um í lok þessa kjörtímabils. Sá tímapunktur ber nú að nokkru fyrr en við hugðum, en við erum ákaflega sátt við þessa ákvörðun.

Ólíkt þeim sem hætta á þingi á efri árum, þá lít ég ekki á þessar málalyktir sem svo, að ég sé alfarið hættur að taka þátt í stjórnmálum. Ég hyggst beita mér af fullum þunga á Alþingi fram til kosninga og vitaskuld starfa áfram í Samfylkingunni. Ákvörðun mín felur það þó í sér að ég mun láta af embætti varaformanns Samfylkingarinnar á næsta landsfundi flokksins.

Ég vil þakka öllum þeim sem ég hef átt í samskiptum við í störfum mínum undanfarin ár, samstarfsfélögum og stuðningsfólki. Að lokum óska ég nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í þeim erfiðu verkefnum sem bíða hennar."

Virðingarfyllst,

Ágúst Ólafur Ágústsson

alþingismaður

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.