Fótbolti

Gautaborg varð að sætta sig við silfrið eftir svekkjandi tap gegn AIK

Ómar Þorgeirsson skrifar
Ragnar Sigurðsson í leik með Gautaborg.
Ragnar Sigurðsson í leik með Gautaborg. Mynd/Guðmundur Svansson

Íslendingaliðið Gautaborg varð að bíta í það súra epli að tapa sannkölluðum úrslitaleik gegn AIK í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Leikurinn fór fram á heimavelli Gautaborgar og endaði 1-2 fyrir AIK en gestunum dugði jafntefli til þess að vinna deildina. Gautaborg hefði aftur á móti með sigri getað hirt titilinn af AIK.

Gautaborg byrjaði betur og komst yfir í leiknum með marki frá Thomas Olsson á 32. mínútu og staðan var 1-0 heimamönnum í vil í hálfleik.

Antonio Flávio jafnaði hins vegar leikinn fyrir AIK snemma í síðari hálfleik og Daniel Tjernström innsiglaði sigur AIK og gulltryggði meistaratitilinn með sigurmarki á 86. mínútu leiksins.

Íslendingarnir þrír, Hjálmar Jónsson, Ragnar Sigurðsson og Theodór Elmar Bjarnason voru allir í byrjunarliði Gautaborgar í leiknum en Theodóri Elmari var skipt af velli á 76. mínútu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×