Erlent

Mótmæla ofbeldi öfgahópa

Mótmælendur og kaþólskir á einu máli. Vilja ekki að borgarastyrjöld hefjist á ný.fréttablaðið/AP
Mótmælendur og kaþólskir á einu máli. Vilja ekki að borgarastyrjöld hefjist á ný.fréttablaðið/AP

Nokkur þúsund manns, jafnt kaþólskir sem mótmælendur, komu saman í Belfast á Norður-Írlandi í gær til að mótmæla ofbeldi öfgahópa, sem vilja kveikja á ný í glæðum átaka um aðskilnað frá Bretlandi.

Sumir grétu og aðrir hristu höfuðið út af dauðsföllum síðustu daga. Tveir klofningshópar út úr Írska lýðveldishernum hafa myrt samtals þrjá menn í þeim tilgangi að grafa undan friðarsamkomulagi, sem gert var fyrir rúmum áratug.

Áður hafði borgarastyrjöld geisað milli mótmælenda og kaþólskra á Norður-Írlandi í þrjá áratugi og kostað þúsundir manna lífið.

„Ég er kaþólskur. Ég ólst upp í hverfi þar sem lögreglan var óvinurinn. Nú hafa hlutirnir svo sannarlega breyst til batnaðar,“ sagði Aidan Kane, sem mætti í mótmælagönguna með sex ára son sinn á háhesti.

„Ef litli strákurinn minn hérna vill verða lögreglumaður þegar hann verður stór, þá verð ég stoltur af honum. Ég á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af því að einhver brjálæðingur skjóti hann fyrir að vera í þjónustu samfélagsins.“

Á mánudagskvöld var lögreglumaður myrtur þar sem hann sat í lögreglubifreið í Belfast. Síðastliðinn laugardag voru tveir hermenn myrtir fyrir utan herstöð, auk þess sem tveir aðrir hermenn og tveir pitsusendlar særðust. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×