Íslenski boltinn

Kristján Guðmundsson: Með ólíkindum að sigra ekki

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Kristján Guðmundsson
Kristján Guðmundsson
Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur var að vonum svekktur að hafa ekki fengið neitt út úr leiknum gegn KR í dag enda fékk liðið nógu góð færi til að taka að minnsta kosti eitt stig út úr leiknum.

"Það er alveg með ólíkindum að við vinnum ekki stórsigur. Að við skulum ekki hafa náð góðri forystu fyrir hlé og þurfa vítaspyrnu í lok hálfleiksins til að brjóta ísinn er með ólíkindum en kannski voru menn að flýta sér of mikið í færunum sem þeir fengu í fyrri hálfeik. Það tók okkur langan tíma að skora þetta mark eftir þrjá markalausa leiki í röð og leikmenn vissu af því og vildu bæta úr. Við fengum gríðarlega mörg færi og eigum að vera vel yfir í hálfleik," sagði Kristján.

"Í báðum mörkunum þeirra erum við á leið upp völlinn í sókn en töpum boltanum með kjánalegum ákvörðunum en þetta er ótrúlegt hvernig þessi leikur féll KR í skaut."

"Efir að þeir skoruðu og fóru að koma framar á okkur áttum við að moka boltanum yfir miðjuna á framherja okkar en við vorum ekki nógu klókir í því."

"Einbeiting fer og Guðmundur fer út úr sinni rútínu sem hann á að framkvæma áður en hann tekur vítaspyrnurnar. Það er bara einbeiting og ekkert annað."

Kristján óttast ekki að liðið sé í mikilli niðursveiflu eftir að hafa aðeins náð í eitt stig í fimm leikjum. "Ég held að við getum tekið þennan leik og tekið allt út úr honum. Við búum til fullt af færum og varnarleikurinn var nokkuð góður. Þetta væri allt annað ef við hefðum verið slakara liðið, við vorum miklu betra liðið og náum ekki að vinna. Ég hef ekki áhyggjur af því að við séum að fara að lenda í einhverri svakalegri dýfu. Þetta var vel spilaður leikur af okkur hálfu og við áttum að vera búnir að ganga frá honum í hléinu," sagði Kristján að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×