Erlent

Biden segir ástandið versna

Joe Biden og Jaap de hoop Scheffer
Varaforseti Bandaríkjanna og framkvæmdastjóri NATO á fundinum í Brussel. fréttablaðið/AP
Joe Biden og Jaap de hoop Scheffer Varaforseti Bandaríkjanna og framkvæmdastjóri NATO á fundinum í Brussel. fréttablaðið/AP

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, segir ástandið í Afganistan fara versnandi. Sama gildi um nágrannaríkið Pakistan.  Hann hvetur aðildarríki Atlantshafsbandalagsins til að taka höndum saman gegn Al Kaída og öðrum öfgahópum í þessum heimshluta.

„Versnandi ástand í þessum heimshluta ógnar ekki aðeins öryggi Bandaríkjanna heldur allra ríkja sem eiga fulltrúa við þetta borð,“ sagði Biden á fundi með sendiherrum allra 26 ríkja Atlantshafsbandalagsins, sem haldinn var í Brussel.

Barack Obama Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í viðtali um helgina að Bandaríkjamenn væru sem stendur ekki að vinna neinn sigur í Afganistan. Jafnframt sagði hann vel koma til greina að ræða við fulltrúa hófsamra talibana og hvetja þá til samstarfs við stjórnvöld í Afganistan. Hugsanlega megi fara svipaðar leiðir og tókst að nokkru í Írak, að fá uppreisnarmenn súnní-múslima til liðs við stjórnvöld.

Hamid Karzai, forseti Afganistans, fagnaði þessum yfirlýsingum Obamas. Hann sagði þó að sumir hópar talibana geti aldrei fallist á sættir. Engu síður væri rétt að ræða við þá sem „þora ekki að snúa aftur til landsins, eða sem telja sig ekki eiga neina aðra kosti en að vera áfram í hópi með talibönum“. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×