Fótbolti

Trapattoni verður þjálfari Íra í tvö ár til viðbótar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giovanni Trapattoni á æfingu með írska landsliðinu.
Giovanni Trapattoni á æfingu með írska landsliðinu. Mynd/AFP

Giovanni Trapattoni skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning um að þjálfa áfram írska landsliðið og mun þessi sjötugi Ítali því stjórna liðinu í undankeppni EM 2012. Írska landsliðið er enn í hörku baráttu um að komast inn á HM í Suður-Afríku næsta sumar.

Trapattoni tók við liðinu á síðasta ári og líkt og með síðasta samning hans við írska knattspyrnusambandið þá mun írski milljarðamæringurinn Denis O'Brien hjálpa sambandinu við að borga launin hans.

„Þetta lið hefur mikla möguleika til að gera góða hluti í framtíðinni. Úrslitin í síðustu leikjum sína okkur hvaða árangri er hægt að ná með sjálfstrausti og skipulagi og ég er spenntur að halda áfram starfinu sem ég var byrjaður á," sagði Trapattoni í fréttatilkynningu.

Írar hafa ekki tapað leik í undankeppni HM undir stjórn Trapattoni og eru sem stendur í öðru sæti riðilsins, fjórum stigum á eftir Heimsmeisturum Ítala og fimm stigum á undan Búlgaríu sem er í þriðja sætinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×