Innlent

Breyta þarf lögum til að bæta réttarstöðu feðra

Úr myndasafni.
Úr myndasafni.
Formaður Félags um foreldrajafnfrétti segir að breyta þurfi lögum strax til að bæta réttarstöðu feðra þegar kemur að umgengni þeirra við börn sín eftir skilnað.

Forsvarsmenn Félags um foreldrajafnrétti segja að jafnrétti kynjanna í forsjár- og umgengnismálum sé ekki viðurkennt á Íslandi, en feðradagurinn er í dag. Sýslumannsembættin skammti flestum skilnaðarbörnum 4 til 6 daga í mánuði með feðrum sínum. Þá telji sýslumannsembættin að skilnaðarbörn eigi ekki að dvelja hjá feðrum sínum á hátíðisdögum og feður séu látnir greiða meðlög algjörlega óháð samvistum við börn sín.

„Það liggur fyrir að 92-95% barna eru með lögheimili hjá móður eftir skilnað. Það mikilvægasta í dag finnst mér að það þarf að koma á heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá," segir Heimir Hilmarsson.

Heimir segir að rannsóknir sýni að foreldrar vilji breytingar á löggjöf í átt til foreldrajafnréttis. Félag um foreldrajafnrétti vill að umgengnismál verði hluti af dómskerfinu. Þá vill félagið að dómarar fái heimild til að dæma umgengni í allt að sjö daga af fjórtán. Félagið vill jafnframt að tvöfalt lögheimili barns verði gert valkvætt.

Heimir er sjálfur þriggja barna faðir, en einkasonur hans sem er átta ára gamall og jafnframt yngsta barnið, dvelst hjá móður sinni. Móðir drengsins fer með forsjá en Heimir nýtur umgengnisréttar við hann. Umgengnismál eru rekin fyrir sýslumönnum, en það er eitt af því sem Heimir og félagar hans vilja breyta.

„Sýslumaðurinn hefur engin tæki til að kanna aðstæður. Hann kannar ekki viðhorf barnanna og kannar yfir höfuð ekki aðstæður hjá foreldrum," segir Heimir.


Tengdar fréttir

Vilja jafnan rétt til að umgangast börnin sín

Félag um foreldrajafnrétti skorar á ríkisstjórn Íslands að taka á jafnrétti foreldra til að umgangast börnin sín en talið er að um 20.000 skilnaðarbörn séu á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×