Innlent

Síbrotamaður í gæsluvarðhald

Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir síbrotamanni sem grunaður er um fjölda þjófnaðarbrota. Héraðsdómur hafði áður úrskurðað manninn í gæsluvarðhald til 11.maí næst komandi. Maðurinn kærði þann úrskurð til Hæstaréttar sem staðfesti fyrri úrskurð héraðsdóms í dag.

Maðurinn var handtekinn í síðustu viku í kjölfar þess að lögregla hafði haft af honum afskipti þar sem hann var grunaður um þjófnað fyrr um morguninn en á honum fannst farsími sem tilkynntur hafði verið stolinn.

Maðurinn hefur margsinnis komið við sögu lögreglu og er nú grunaður um sjö innbrot og þjófnaði frá því á fimmtudaginn 9.apríl. Maðurinn hefur áður hlotið fjöldamarga fangelsisdóma fyrir samskonar brot. Það var mat lögreglu að maðurinn hefði einbeittan brotavilja og ekkert lát virðist á brotastarfsemi hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×