Erlent

Réttarhöldum yfir bloggara í Kína frestað um óákveðinn tíma

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Huang Qi.
Huang Qi. MYND/Sameinuðu þjóðirnar

Réttarhöldum yfir kínverskum bloggara hefur verið frestað um óákveðinn tíma eftir að bandarísk stjórnvöld fóru þess á leit að fulltrúi þeirra yrði viðstaddur réttarhöldin.

Huang Qi hefur ekki haft annað útsýni en veggi kínversks fangaklefa síðan í júní í fyrra en þá var hann handtekinn fyrir að hafa í sínum vörslum efni sem flokkaðist sem ríkisleyndarmál og birta það á bloggsíðu sinni. Ríkisleyndarmálið svonefnda eru málsgögn og kærur nokkurra foreldra sem misstu börn sín í jarðskjálftanum í Sichuan-héraði 12. maí í fyrra þegar nokkrir barnaskólar hrundu til grunna.

Síðar kom í ljós að skólabyggingarnar stóðust engar byggingaöryggiskröfur og lögðu fjölskyldurnar því upp í það óralanga og hálfvonlausa ferðalag sem málsókn á hendur stjórnvöldum Alþýðulýðveldisins er. Huang Qi kynntist fólkinu þegar hann tók ásamt fjölda manns þátt í því að bjarga fórnarlömbum jarðskjálftans úr húsarústum dagana eftir skjálftann.

Réttarhöld yfir honum áttu að hefjast 3. febrúar en var frestað um óákveðinn tíma og er það mál manna að það sé engin tilviljun að sú frestun er ákveðin örskömmu fyrir heimsókn bandaríska utanríkisráðherrans Hillary Clinton til Asíu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×