Fótbolti

Úrúgvæ - Argentína í beinni í kvöld

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Diego Maradona og hans menn verða í eldlínunni í kvöld.
Diego Maradona og hans menn verða í eldlínunni í kvöld. Nordic Photos / AFP

Stöð 2 Sport mun sýna beint frá gríðarlega mikilvægum leik Argentínu og Úrúgvæ í undankeppni HM 2010 í kvöld.

Þetta er hreinn úrslitaleikur um hvort liðið tryggir sér beinan þátttökurétt á HM í Suður-Afríku á næsta ári.

Fjögur efstu liðin í Suður-Ameríkuriðlinum komast beint á HM en fimmta liðið þarf að fara í umspil.

Sem stendur er Argentína í fjórða sæti riðilsins með 25 stig eftir ævintýralegan 2-1 sigur á botnliði Perú um síðustu helgi.

Úrúgvæ er þó aðeins einu stigi á eftir Argentínu og getur því með sigri í leiknum tryggt sér fjórða sætið.

Jafntefli dugir þó Argentínu ekki endilega. Ekvador er í sjötta sætinu með 23 stig og myndi með minnst fimm marka sigri á Chile skjótast upp í fjórða sæti riðilsins ef Argentína og Úrúgvæ myndu skilja jöfn.

Argentína myndi þá hafna í fimmta sæti og þyrfti þá að fara í umspil.

Leikurinn hefst klukkan 22.00 og útsending Stöðvar 2 Sports hefst tíu mínútum fyrr. Á sama tíma hefst leikur Brasilíu og Venesúela og verður upptaka af honum sýnd að leiknum loknum.

Brasilía, Paragvæ og Chile eru öll búin að tryggja sér farseðilinn til Suður-Afríku.

Þess má einnig geta að Stöð 2 Sport mun einnig sýna beint frá leik Englands og Hvíta-Rússlands sem hefst klukkan 19.00.

Klukkan 16.00 hefst svo leikur Þýskalands og Finnlands. Leikurinn verður í beinni útsendingu á ARD sem sýnd er á Fjölvarpinu. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 15.15.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×