Innlent

Ólafur Ragnar í Abu Dhabi

Ólafur Ragnar skoðar framkvæmdir í Masdar borg. Mynd/forseti.is
Ólafur Ragnar skoðar framkvæmdir í Masdar borg. Mynd/forseti.is

Forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson sat um helgina fund dómnefndar Zayed orkuverðlaunanna en þau eru meðal veglegustu verðlauna veraldar, veitt fyrir nýjungar og forystu á vettvangi hreinnar orku. Fundurinn var haldinn í Abu Dhabi enda eru verðlaunin kennd við fyrrum leiðtoga landsins. Þau verða afhent á Heimsþingi um orkumál framtíðar sem haldið verður í Abu Dhabi í janúar næstkomandi, að fram kemur í tilkynningu frá forsetaembættinu.

Auk forseta Íslands skipa dómnefndina dr. R. K. Pachauri, formaður Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC), Susan Hockfield rektor MIT háskólans í Bandaríkjunum, Norman Foster arkitekt og hönnuður fjölmargra þekktra bygginga víða um heim, Browne lávarður og fyrrum forstjóri BP og Helene Pelosse framkvæmdastjóri hinnar nýju alþjóðastofnunar endurnýjanlegrar orku, IRENA.

Fyrsta mengunarlausa borg veraldar

Þá heimsótti forseti byggingarsvæði hinnar væntanlegu Masdar borgar sem ætlað er að verða fyrsta mengunarlausa borg veraldar. Útblástur koltvísýrings verður enginn og allur úrgangur endurunninn. Sveit íslenskra sérfræðinga vinnur nú að undirbúningi borana eftir jarðhita á borgarsvæðinu, en ætlunin er að nýta jarðhita til að knýja loftkælingu borgarinnar.

Fram kemur í tilkynningunni að forsetinn hafi átt ítarlegar viðræður við íslensku sérfræðinganna sem starfa að þessu jarðhitaverkefni en það er á vegum fyrirtækisins Reykjavik Geothermal. Skoðaði forseti hið væntanlega borsvæði þar sem nú þegar er búið að reisa undirstöður borsins en áformað er að hefja boranir í næsta mánuði. Að sögn fulltrúa Reykjavik Geothermal verða þetta fyrstu jarðhitaboranirnar í þessum heimshluta.

Fundaði með Sheik Mohamed bin Zayed Al Nahyan

Fyrr í dag átti Ólafur Ragnar fund með þjóðarleiðtoga Abu Dhabi, Sheik Mohamed bin Zayed Al Nahyan. Í tilkynningu segir að hann hafi lýst sérstakri ánægju með störf íslenskra sérfræðinga, verkfræðinga og vísindamanna í Abu Dhabi. Miklar vonir væru bundnar við jarðhitaboranir í hinni nýju Masdar borg en árangur þeirra skipti sköpum fyrir vistvænan grundvöll hennar.

Loks hitti forsetinn í morgun starfsmenn íslensku verkfræðistofunnar Eflu, en verkfræðingar og tæknifræðingar á hennar vegum vinna nú við byggingu nýs álvers í Abu Dhabi, EMAL, sem verður meðal stærstu álvera veraldar. Eflumenn nýta sér á þessum vettvangi reynslu og þekkingu sem þeir hafa aflað sér á Íslandi á undanförnum árum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×