Íslenski boltinn

Þorgrímur: Ég veit ekki hvað er að hjá okkur

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Þorgrímur Þráinsson.
Þorgrímur Þráinsson.

Þorgrímur Þráinsson, þjálfari Vals, hafði ekki neinar skýringar á reiðum höndum á arfaslökum og andlausum leik Vals gegn FH í kvöld.

„Það eru auðvitað dálítið erfiðar aðstæður hérna og menn eru í sárum. Það sjá það allir. Ég vildi að ég gæti haft svör á reiðum höndum um það sem er að hjá okkur," sagði Þorgrímur.

„Ég er búinn að vera hér í þrjá mánuði og ef ég vissi það þá væri liðið ekki í þessari stöðu. Því miður, ég hef ekki nein svör."

Þorgrímur segist ekki hafa áhuga á því að þjálfa liðið áfram sem aðalþjálfari en er tilbúinn að aðstoða ef nýr þjálfari óskar þess.

„Ég verð hér eins lengi og félagið biður mig um að vera hér. Ég hef samt ekki metnað til þess að stýra liðinu og er ekki á þeirri leið. Ef það kemur nýr þjálfari sem vill hafa annan aðstoðarmann þá vík ég að sjálfsögðu til hliðar," sagði Þorgrímur Þráinsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×