Lífið

Geirmundur á 101-þorrablóti

Sindri Kjartansson stendur fyrir þorrablóti á Prikinu í kvöld fyrir vini sína.
Sindri Kjartansson stendur fyrir þorrablóti á Prikinu í kvöld fyrir vini sína.

Hið árlega þorrablót Sindra og Stjúra verður haldið á Prikinu í kvöld fyrir luktum dyrum. Blótið, sem kallast Lopapeysan, byrjar á frumsömdu leikriti og eftir það verður snæddur þorramatur undir harmonikkuleik Reynis Jónassonar. Sjálfur Geirmundur Valtýsson treður síðan upp og heldur uppi alvöru þorrastemningu.

„Ég og vinur minn sátum á kaffihúsi fyrir þremur árum og okkur fannst báðum leiðinlegt að okkur væri ekki boðið á neitt skemmtilegt þorrablót," segir Sindri Kjartansson kvikmyndagerðarmaður. „Við ákváðum að halda eitt slíkt og buðum fólki í kringum okkur. Við eigum óhemju marga vini og þarna hafa mætt hátt í hundrað manns í hvert skipti."

Sindri segir að þorrablótið sé ávallt mjög vel útilátið og ber þar hæst súr hvalur sem hann er sérlega hrifinn af. „Það er alltaf dálítið erfitt að redda honum. Ég gæti borðað súran hval allan veturinn."

Hann segir að uppátækið hafi vakið mikla lukku hjá vinum sínum, sem flestir búa í 101 Reykjavík, og er það þegar orðinn fastur liður í tilveru þeirra. „Það er gaman að sjá hvað allir detta í sama gírinn, einhvers konar þorragír. Það eru allir farnir að öskra „Öxar við ána" og „Nú er frost á Fróni" og bara brosandi allan hringinn."

Þorrablótið stendur yfir frá 19 til tvö um nóttina og eftir það verður Prikið opnað almenningi. - fb
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.