Enski boltinn

Ferguson: Verð ennþá hjá United þegar Mancini verður rekinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Mynd/AFP

Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur látið í sér heyra yfir framkomu Manchester City gagnvart gamla lærisveini sínum Mark Hughes. Ferguson spáir því að Mancini verði ekki langlífur í starfi hjá nágrönnunum ekkert frekar en þeir þrettán stjórar sem hafa komið og farið á meðan Ferguson hefur stýrt Manchester United.

„Eru þetta ekki nema fjórtán stjórar, ég hefði haldið að þeir væru tuttugu. Ég get ekki beðið eftir þeim tuttugasta," sagði Ferguson í kaldhæðni en hann hefur setið sem fastast sjálfur í 25 ár.

„Þeir taka mikla áhættu með þessu en tíminn mun leiða það í ljós hvernig þetta mun ganga hjá honum. Þetta er ekki auðveld deild," sagði Ferguson.

„Það er allt annað en auðvelt að vera í sömu borg og Manchester United eftir alla velgengnina undanfarin ár. Þeir eru alltaf að leita eftir tækifæri til þess að velta okkur úr sessi og að ná í Carlos Tevez var ein af þeim tilraunum," sagði Ferguson.

Ferguson hefur trú á Mark Hughes. „Mark kemur til baka. Hann er harður af sér og sannur baráttumaður. Hann gerði frábæra hluti með velska landsliðið sem var ekki auðvelt á þeim tíma. Hann gerði einnig góða hluti með Blackburn og allir héldu að hann væri rétti maðurinn fyrir City," sagði Ferguson um gamla lærisveininn sinn.

Manchester City fær Stoke í heimsókn í fyrsta leik Roberto Mancini í dag en Manchester United heimsækir Hull á morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×