Enski boltinn

Mörkin hans Cesc Fábregas voru áhættunar virði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cesc Fábregas tognaði um leið og hann skoraði annan markið sitt.
Cesc Fábregas tognaði um leið og hann skoraði annan markið sitt. Mynd/AFP

Arsène Wenger, stjóri Arsenal, sér ekki eftir því að hafa sett Cesc Fábregas inn á völlinn á móti Aston Villa í dag þó svo að Spánverjinn væri ekki orðinn hundrað prósent góður af meiðslunum.

Fábregas skoraði tvö glæsileg mörk og lagði grunninn að 3-0 sigri á Aston Villa en hann þurfti líka að yfirgefa völlinn vegna tognunar aftan í læri og gæti verið frá í allt að þrjár vikur til viðbótar.

„Var þetta áhætta? Ef að þið getið sannað að við hefðum unnið leikinn án hans þá skal ég viðurkenna það að ég hafi haft rangt fyrir mér. Fábregas er skapandi leikmaður og mér fannst okkur vanta hann á þessum tímapunkti í leiknum. Maður gerir það sem maður þarf til að vinna leikinn og ég myndi senda hann aftur inn á," sagði Wenger.

Cesc Fábregas entist aðeins í 27 mínútur áður en hann haltraði meiddur af velli en náði á þeim tíma að skora tvö frábær mörk, það fyrra úr aukaspyrnu sem hann fiskaði sjálfur og það seinna eftir gott hlaup og laglega sendingu Theo Walcott.

„Við vissum fyrir leikinn að hann væri ekki alveg búinn að ná sér. Vonandi kostar þetta ekki langa fjarveru. Þetta er líklega bara smá tognun en hann hefur rifið vöðvann á ný þá þýðir þetta þriggja vikna fjarveru," sagði Arsene Wenger eftir leikinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×