Innlent

30 tonn af kókaíni í sýrópinu

Á myndinni má sjá hluta af sýrópsbrúsunum sem lögreglan í Guayaquil, stærstu borg Ekvadors, lagði hald á í maí. Fíkniefnafundurinn er með þeim allra stærstu í sögunni.Fréttablaðið / ap
Á myndinni má sjá hluta af sýrópsbrúsunum sem lögreglan í Guayaquil, stærstu borg Ekvadors, lagði hald á í maí. Fíkniefnafundurinn er með þeim allra stærstu í sögunni.Fréttablaðið / ap
Þrír Íslendingar sem handteknir voru í sumar og sátu um tíma í gæsluvarðhaldi, Ársæll Snorrason, Gunnar Viðar Árnason og Sigurður Ólason, voru taldir tengjast einu stærsta fíkniefnamáli sem upp hefur komið í heiminum. Í málinu lagði lögreglan í Ekvador hald á um 600 brúsa af melassa, eins konar dökku sýrópi, sem búið var að blanda í tæplega 30 tonnum af hreinu kókaíni. Efnin voru á leið til Evrópu og voru metin á hundruð milljónir dollara.

Málið, sem gekk undir vinnuheitinu Landamærafellibylurinn hjá lögreglu, kom upp í maí síðastliðnum og vakti gríðarlega athygli ytra. Málið teygði anga sína til Hollands, Lettlands, Bahamaeyja, Þýskalands og Íslands og vel á annan tug manna var handtekinn vegna þess. Í Ekvador voru fimm handteknir, þrír Ekvadorar, einn Rússi og alræmdur lettneskur glæpamaður, Vladimir Mitrevics, sem kallaður er Sólblómið og er talinn einn af höfuðpaurunum.

Sex voru handteknir í Hollandi, meðal þeirra Hollendingurinn Ronny Verwoerd og Ísraelsmaðurinn Erez Zizov. Sagt hefur verið frá því að þeir tveir hafi haft samskipti við þremenningana íslensku. Ársæll hafi komið þeim í samband við Sigurð, sem aftur hafi hjálpað þeim að stofna fyrirtæki á Íslandi til að kaupa vörubíla.

Þessi tengsl leiddu til handtöku Íslendinganna. Í rökstuðningi lögreglu fyrir gæsluvarðhaldsúrskurðum yfir þeim voru þeir sagðir grunaðir um aðild að tilraun til að smygla 17 af tonnunum 30 til Evrópu.

Aðalmeðferð hefst í dag í máli Gunnars Viðars, sem einn er ákærður fyrir innflutning á sex kílóum af amfetamíni til landsins með póstsendingu í vor, sem send var frá Hollandi af Roel nokkrum Knopper. Knopper var einnig handtekinn í kókaínmálinu risavaxna. Sigurður og Ársæll eru ekki ákærðir í því máli, en ríkissaksóknari hefur enn til meðferðar ásakanir á hendur þeim um peningaþvætti og tengsl við alþjóðlegan glæpahring. stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×