Enski boltinn

Hermann með eins árs samningstilboð í höndunum

Ómar Þorgeirsson skrifar
Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson. Nordic photos/Getty images

Peter Storrie stjórnarformaður Portsmouth hefur staðfest að landsliðsfyrirliðinn Hermann Hreiðarsson sé búinn að fá nýtt samningstilboð frá félaginu.

Þá stendur til að Portsmouth bjóði Sol Campbell nýjan samning en miðjumaðurinn Sean Davis hefur hins vegar þegar neitað samningstilboði félagsins og er einn af þeim fjölmörgu leikmönnum sem munu yfirgefa félagið í sumar.

„Við erum búnir að bjóða Hermanni nýjan eins árs samning. Þá erum við jafnframt búnir að tala við Sol Campbell en eins og staðan er núna þá liggur hins vegar ekkert fyrir hvað verður með hann. Leikmaðurinn er í fríi og samningsviðræður hefjast aftur þegar hann snýr til baka," segir Storrie.

Hermann hefur hins vegar sagt að hann vilji fyrst sjá hvaða knattspyrnustjóri taki við Portsmouth áður en hann ákveður framtíð sína hjá félaginu.

Þá staðfesti Storrie að Jermaine Pennant muni snúa aftur í herbúðir Liverpool eftir að Portsmouth ákvað að nýta sér ekki kaupréttarklausu í lánssamningi kappans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×