Innlent

Landað framhjá vigt úr báti Grétars

Grétar Mar Jónsson, fyrrverandi alþingismaður Frjálslynda flokksins, á yfir höfði sér veiðileyfissviftingu eftir að leigutaki nýkeypts báts hans var staðinn að því landa hálfu tonni af fiski framhjá vigt í Sandgerði í gær. Veiðieftirlit Fiskistofu kærði málið til lögreglu.

Við sögðum frá því í fyrradag að Grétar Mar hefði keypt sér þrjátíu tonna bát út á væntanlegan skötuselskvóta, sem stjórnvöld hyggjast leigja nýjum aðilum. Útgerðin fer hins vegar óheppilega af stað því veiðieftirlitsmenn Fiskistofu stóðu áhöfnina í gær að því að landa framhjá vigt í Sandgerði og kölluðu til lögreglu. Vörubíll með 510 kílóa afla var þá búinn að aka til Keflavíkur.

Grétar Mar segist vera fórnarlamb í þessu dæmi því báturinn sé tímabundið í leigu hjá öðrum aðila. Hann kveðst hins vegar óttast að ef sá aðili greiðir ekki sektina, sem hann býst við að verði minnst 400 þúsund krónur, lendi hún á sér. Þá gerir Grétar ráð fyrir að báturinn verði sviftur veiðileyfi í tvær vikur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×