Íslenski boltinn

Ólafur: Vorum skynsamir og leystum þetta ágætlega

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks.
Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks.

„Ég veit ekki hvort að þetta hafi verið létt því við þurftum að spila leikinn," sagði Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari Blika eftir 2-0 sigur á föllnum Fjölnismönnum í Grafarvoginum í dag.

„Mér fannst við vera nokkuð skynsamir, við létum boltann rúlla og reyndum að teyma þá út. Það er mjög gott að skora tvö mörk og halda hreinu í þriðja leiknum á einni viku. Ég er sáttur við það og mér fannst við leysa þetta ágætlega," sagði Ólafur.

Hann gat nú notað Guðmund Pétursson sem mátti ekki spila á móti KR. Guðmundur skoraði annað markið og lagði upp hitt.

„Guðmundur skoraði gott mark og lagði upp eitt. Hann fékk líka ágætis færi til viðbótar og við þurfum aðeins að skerpa á honum því það er vika síðan að hann spilaði," sagði Ólafur og bætti við: „Mér fannst ég aðeins sjá það á liðinu að það væru komin þyngsli í menn en við vorum skynsamir," sagði Ólafur.

„Það er ekkert auðvelt að spila á móti Fjölni. Þeir voru fallnir en voru að spila fyrir stoltið. Við þurftum að mæta almennilega til leiks sem mér fannst við gera. Ég er mjög sáttur við stigin," sagði Ólafur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×