Erlent

Bush segist hafa fylgt samvisku sinni

George W. Bush.
George W. Bush. MYND/AP

George Bush fráfarandi Bandaríkjaforseti sagði í kveðjuræðu sinni til bandarísku þjóðarinnar að hann hafi alltaf fylgt sinni bestu samvisku í embættisverkum sínum.

George Bush ræddi meðal annars um erfiðar ákvarðanir sem hann hefði þurft að taka á átta árum sínum í embætti forseta Bandaríkjanna. Meðal annars eftir árásirnar ellefta september.

„Það eru hlutir sem ég myndi gera öðruvísi ef ég hefði tækifæri til þess sagði hann. Ég hef hinsvegar alltaf haft hagsmuni þjóðarinnar í huga. Ég hef fylgt samvisku minni og gert það sem ég taldi rétt. Þið eruð sjálfsagt ekki sammála öllum þeim erfiðu ákvörðunum sem ég hef tekið. En ég vona að þið viðurkennið að ég var ávallt reiðubúinn að taka erfiðar ákvarðanir," sagði Bush.

Forsetinn viðurkenndi að sumar ákvarðanirnar sem hann tók eftir ellefta september hafi verið umdeildar. Hann kvaðst samt standa við þær.

Bush sagði að það hefði verið eðlileg umræða um sumar þessar ákvarðanir, en það væri ekki hægt að deila um árangurinn. Bandaríkin hefðu ekki þurft að upplifa aðra hryðjuverkaárás síðastliðin sjö ár.

Hann varaði við því að erfiðasta vandamál hins nýja forseta yrði að verjast frekari hryðjuverkum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×