Fótbolti

Kaupir Beckham lið í Las Vegas?

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Beckham segist ætla að búa áfram í Bandaríkjunum.
Beckham segist ætla að búa áfram í Bandaríkjunum. Nordic Photos/Getty Images

David Beckham stefnir á að nýta sér klausu í samningi sínum í Bandaríkjunum sem gerir honum kleift að kaupa lið í bandarísku MLS-deildinni þegar knattspyrnuferli hans lýkur. Samningur hans við LA Galaxy rennur út árið 2011.

„Ég á rétt á þessu og stefni að því að gera veruleika úr þessu um leið og ég hætti að spila," sagði Beckham sem segist enn vera ákveðinn í því að hjálpa fótboltanum í Bandaríkjunum að ná þeim hæðum sem vonir standa til. Hann segist einnig ætla að halda áfram að búa í Los Angeles ásamt fjölskyldu sinni.

Það hefur lengi verið skrafað um að þessi klausa væri til staðar en hefur ekki fengist staðfest fyrr en nú.

MLS stefnir á að fjölga liðum á næstu árum. Seattle Sounders er 15. lið deildarinnar en það félag kom inn á þessu ári. Philadelphia kemur með lið á næsta ári og svo er stefnt að því að bæta tveim í viðbót við árið 2011.

Vancouver, Ottawa, Portland og St. Louis eru meðal þeirra borga sem vilja koma inn í deildina 2011.

Ekki er talið líklegt að Beckham vilji kaupa þau félög sem nú eru til staðar heldur vilji hann kaupa nýtt félag sem sé nærri LA. Horfa menn til Las Vegas og San Diego í því sambandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×