Enn hefur enginn verið handtekinn vegna brunans í Laugarásvideo í nótt en grunur leikur á að um íkveikju hafi verið að ræða.
Húsnæði videoleigunnar er gerónýtt og barst mikill reykur í verslanir sem liggja að videoleigunni og íbúðir sem eru fyrir ofan hana. Rauði krossinn útvegaði gistingu fyrir þrjá íbúa í Farfuglaheimilinu í Laugardal en heimili þeirra var ekki íbúðahæft sökum reyks.
Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum er gert ráð fyrir að fólkið geti snúið heim til sín á morgun.
Rannsóknarlögreglumenn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu rannsaka tildrög brunans.
Eins og fram kom í hádegisfréttum Bylgjunnar telur Gunnar Jósefsson eigandi myndbandaleigunnar eignatjónið vera um 250 milljónir króna.
