Enski boltinn

Redknapp er hættur að klappa leikmönnum sínum

Harry kallar eftir karlmennsku hjá Spurs
Harry kallar eftir karlmennsku hjá Spurs NordicPhotos/GettyImages

Harry Redknapp stjóri Tottenham hefur enn og aftur lýst því yfir að nú sé kominn tími til fyrir hans menn að sýna þá nauðsynlegu hörku sem til þarf til að halda liðinu í úrvalsdeildinni.

Tottenham virtist hafa snúið við blaðinu þegar Redknapp tók við liðinu fyrr í vetur, en eftir smá rispu í byrjun, hefur liðið sigið aftur á sama gamla planið. Sjálfstraustið horfið og merkja má hik og ótta í leik liðsins. Sigrarnir sjaldgæfir.

Nú er kominn tími til að bretta upp ermarnar ef ekki á illa að fara segir þjálfarinn.

"Við verðum að gera okkur grein fyrir því að nú snýst allt um að vinna. Það er ekki nóg að spila vel þegar allt gengur í haginn. Nú snýst þetta um meiri hörku. Þetta er ekki slæmt lið, mér finnst það bara þurfa að herða sig upp og ég hef látið menn vita af því undanfarið," sagði Redknapp.

"Ég hef gert nóg af því að hrósa strákunum og segja þeim hve góðir þeir eru, en það þýðir ekkert til lengdar. Það þýðir ekkert að segja alltaf "vel gert, vel gert" ef liðið heldur áfram að tapa. Það kemur að því að maður þarf að segja eitthvað," sagði stjórinn.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann hittir naglann á höfuðið í vetur, enda virðast leikmenn Tottenham stundum hafa meiri áhyggjur af því að laga á sér hárið en vinna tæklingar.

Tottenham mætir erkifjendunum í Arsenal á White Hart Lane á morgun og ef Redknapp fær ekki svör frá leikmönnum sínum í þeim leik - fær hann þau líklega aldrei.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×