Innlent

Stórtækir ísþjófar handteknir

Lögreglan á Akureyri upplýsti um helgina alls 28 innbrots- og þjófnaðarmál sem hafa átt sér stað á Akureyri undanfarnar vikur.

Samkvæmt tilkynningu þá er um að ræða fjóra pilta á aldrinum 17-19 ára og nutu þeir aðstoðar þess fimmta í nokkrum tilvikum. Þeir brutust meðal annars þrisvar sinnum inn í vélageymslu golfskálans að Jaðri á Akureyri, fjórum sinnum í húsnæði skátafélagsins að Hömrum, tvisvar sinnum inn í Fjölsmiðjuna, fimm sinnum inn í ísbíl í eigu Emmess, tíu sinnum fóru þeir inn í gám við skemmtistaðinn Amor og tóku þar talsvert magn af tómum drykkjarumbúðum sem þeir svo fengu greitt fyrir hjá Endurvinnslunni.

Auk þessa stálu þeir bensíni af þremur vélsleðum og einum dekkjagangi undan bifreið þar sem hún stóð í Glerárhverfi. Í þessum málum stálu piltarnir meðal annars fjórhjóli, ýmsum verkfærum, um 400 lítrum af eldsneyti, sælgæti, talsverðu magni af ís, smámynnt og ýmsum smáhlutum.

Auk þessa unnu þeir talsverðar skemmdir meðal annars með því að aka golfbíl og sláttutraktor út í tjörn og skurð, unnu skemmdir á kælikassa ísbílsins, brutu rúður, spenntu upp glugga og eyðilögðu peningaskáp. Piltarnir játuðu brot sín við yfirheyrslur hjá lögreglunni en allir hafa þeir komið við sögu hjá lögreglu áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×