Erlent

Milljón manna þurft að flýja heimili sín

taívan Sex hæða hótel varð rigningunni að bráð í Taívan um helgina. 300 manns voru á hótelinu en það var rýmt skömmu áður en það hrundi. Gríðarleg rigning og vindur var í landinu um helgina á meðan fellibylurinn Morakot reið þar yfir. 
fréttablaðið/ap
taívan Sex hæða hótel varð rigningunni að bráð í Taívan um helgina. 300 manns voru á hótelinu en það var rýmt skömmu áður en það hrundi. Gríðarleg rigning og vindur var í landinu um helgina á meðan fellibylurinn Morakot reið þar yfir. fréttablaðið/ap

Um ein milljón manna hefur þurft að yfirgefa heimili sín í Kína vegna mikilla flóða af völdum fellibylsins Morakot. Áður hafði fellibylurinn riðið yfir Taívan og Filippseyjar. Einn hefur látið lífið í Kína. Tuga manna er saknað í Taívan og að minnsta kosti 21 hefur látið lífið á Filippseyjum, og sjö til viðbótar er saknað. Þrír evrópskir ferðamenn eru á meðal þeirra sem saknað er.

Gífurleg flóð hafa orðið af völdum fellibylsins. Í Taívan eru flóðin þau verstu í fimmtíu ár og hefur úrkoman mælst 2000 millimetrar. Þar hrundi sex hæða hótel út í á vegna flóðanna, en búið var að rýma hótelið áður en það gerðist. 300 manns voru á hótelinu, sem var vinsælt meðal ferðamanna. Fellibylurinn gekk yfir á föstudag og laugardag. Sextán manns er saknað eftir að hús hrundi í flóði, þeirra á meðal voru tveir lögreglumenn sem voru að hjálpa fólki að komast út úr húsinu. Alls er 31 saknað þar í landi og þrjú dauðsföll hafa verið staðfest. Skólum hefur verið lokað og öllu flugi undanfarna daga hefur verið aflýst.

Fellibylurinn kom á land á austurströnd Kína í gær og bar með sér gríðarmikla rigningu og vind sem náði yfir hundrað kílómetra hraða. Um 500 þúsund manns hafa verið fluttir frá Zheijiang-héraði og annar eins fjöldi frá Fujian-héraði. Að minnsta kosti einn er látinn. Lítill drengur lét lífið eftir að hús sem hann var í hrundi og hann grófst undir rústum þess.

Fjórir aðrir fjölskyldumeðlimir lifðu af. Rúmlega 300 hús hafa hrunið vegna rigninganna. Lögreglumenn hafa farið um og dreift vatni og núðlum til þeirra íbúa sem eru fastir í húsum sínum vegna flóðanna. 48 þúsund bátar og skip hafa verið send í land og bæði flugferðum og strætóferðum hefur verið aflýst í héruðunum.

Áhrifa fellibylsins gætir líka í Japan, en í suðurhluta landsins hefur verið mikil rigning og sterkur vindur. Eina röskunin sem fellibylurinn hefur valdið þar í landi er að flugi hefur verið aflýst.

Morakot er langsterkasti fellibylur sem gengið hefur yfir á þessu ári á svæðinu, en þar eru fellibylir algengir.

Fellibylurinn mun fara yfir Sjanghæ í dag og hefur verið gripið til mikilla varúðarráðstafana vegna þess. Búist er við því að fellibylurinn minnki frá og með deginum í dag.

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×