Íslenski boltinn

Atli hefur ekkert heyrt frá Völsurum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Atli Eðvaldsson.
Atli Eðvaldsson.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu í morgun þá hefur Atli Eðvaldsson, fyrrum landsliðsþjálfari, talsverðan áhuga á því að taka við liði Vals af Willum Þór Þórssyni.

Nafn Atla er á meðal þeirra sem hafa verið nefnd í starfið.

„Ég hef ekki heyrt neitt. Það er í rauninni ekkert óeðlilegt við það. Þeir eiga stóran leik í kvöld og eru eflaust að hugsa um hann. Eftir þann leik hljóta þeir að setjast niður og fara yfir stöðuna," sagði Atli við Vísi.

„Ef þeir hafa áhuga á að fá mig þá hljóta þeir að hafa samband fyrr en síðar. Ég er til og þarna er ég uppalinn. Ef ég á ekki að gera það hver á þá að gera það?

„Svo getur vel verið að það gangi vel í kvöld og Toggi klári svo bara tímabilið. Maður veit aldrei í þessum bransa."

Atli er fyrrum Valsmaður sem hefur afrekað allt með Val.

„Ég á aðeins eftir að þjálfa hjá Val. Ég ætla mér að þjálfa einhvern tímann hjá félaginu en hvort það verður núna eða síðar verður að koma í ljós," sagði Atli.

Það er ekki allir Valsarar sáttir við þá hugmynd að Atli taki við liðinu og þeir sem helst eru á móti því eru þeir sem móðguðust hvað mest er hann fór í KR á sínum tíma.

„Ef menn ætla að vera svo barnalegir að nota það sem eitthvað gegn mér þá verða þeir að eiga það við sig. Það var fullt af mönnum sem þoldu mig ekki á sínum tíma bara af því ég var Valsari.

„Svo var fullt af mönnum í KR sem þoldu mig ekki þegar ég kom þangað því ég var Valsari. Þannig er þetta bara en ég á fullt af vinum í báðum félögum.

„Engu að síður er það þannig að ef maður er elskaður af öllum þá hlýtur maður að vera að gera eitthvað rangt," sagði Atli Eðvaldsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×