Íslenski boltinn

Stefán Logi: Línuvörðurinn var ekki í línu

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Stefán Logi Magnússon.
Stefán Logi Magnússon. Mynd/Arnþór
Stefán Logi Magnússon markvörður KR var ekki sáttur við aðstoðardómarann Leikni Ágústsson sem flaggaði síðara mark Fylkis inni.

"Ég held að þetta hafi ekki verið mark. Ég held að línuvörðurinn hafi verið horfa á mig en ekki boltann. Þegar ég lít upp þá er hann ekki í línu við endalínuna, er langt frá henni. Það gera allir mistök en það er ansi súrt að tapa stigum útaf svona mistökum og við höfum gert mikið af því," sagði Stefán eftir 2-2 jafntefli Fylkis og KR í Árbænum í kvöld.

"Þetta eru tvö stig töpuð og það voru þrjú stig töpuð í síðasta leik og líka á móti Þrótti heima. Við erum engan vegin sáttir við þetta ef við ætlum að vera í toppbaráttu. Við getum sjálfum okkur um kennt með því að gera ekki það sem er fyrir okkur lagt strax frá byrjun fyrri og seinni hálfleiks. Þá lendir maður í vandræðum."

"Fylkismenn eiga hrós skilið fyrir að þora að koma fram á við og leggja pressu á okkar menn. Það er ekki við neina að sakast nema okkur sjálfa að svona fór.Við létum þá ekki hafa nógu mikið fyrir hlutunum. Við bíðum eftir því að hlutirnir gerist og svo gerast þeir í áttina að okkur og við lendum undir og það er of seint. Þú þarft að stjórna leikjum til að ná árangri og vera ofarlega í töflunni. Þetta er eitthvað sem þjálfararnir eru að vinna með. Við þurfum að halda boltanum og hreyfa okkur án bolta. Það fer vonandi að koma," sagði Stefán Logi að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×