Erlent

Spjallaði um áformin á netinu

Stúlka virðir fyrir sér kerti og blóm sem íbúar Winnenden hafa lagt við skólann þar sem harmleikurinn átti sér stað. 
fréttablaðið/ap
Stúlka virðir fyrir sér kerti og blóm sem íbúar Winnenden hafa lagt við skólann þar sem harmleikurinn átti sér stað. fréttablaðið/ap

Þýsk lögregluyfirvöld birtu í gær afrit af netspjalli milli hins sautján ára Tims Kretschmer og spjallfélaga hans, sem fór fram sex klukkustundum áður en sá fyrrnefndi lét til skarar skríða.

Í afritinu kemur fram að fjöldamorðinginn tilvonandi lýsti áformum sínum. Fram kemur í svörum við þeim lýsingum Kretschmers að spjallfélagarnir taka hann ekki alvarlega. Einn svaraði með skammstöfuninni „LOL“, sem stendur fyrir „laughing out loud“ eða „sprenghlægilegt“.

„Bernd, ég er búinn að fá nóg,“ skrifar Kretschmer. „Ég hef fengið mig fullsaddan af þessu lífi, þetta er alltaf sama ruglið. Allir hlæja að mér, enginn sér hvað í rauninni í mér býr. Mér er alvara Bernd – ég er með vopn hérna. Snemma í fyrramálið ætla ég að fara í gamla skólann minn og grilla þau almennilega. Kannski slepp ég líka. Vittu til, Bernd, þið munuð heyra frá mér á morgun, muna eftir nafni á stað sem kallast Winnenden. Ekki blanda löggunni í þetta, hafðu ekki áhyggjur. Ég er bara að fíflast.“

Árásin í Winnenden, sem kostaði níu nema, þrjá kennara og þrjá vegfarendur lífið auk árásarmannsins, hefur orðið til þess að stjórnvöld í Evrópulöndum íhuga að herða enn á lögum um vopnaburð. - aa




Fleiri fréttir

Sjá meira


×