Innlent

Ákvörðunin árið 2007 var rétt

Einar K. Guðfinnsson Vill ræða niðurstöður haustrallsins í Sjávarútvegsnefnd.fréttablaðið/gva
Einar K. Guðfinnsson Vill ræða niðurstöður haustrallsins í Sjávarútvegsnefnd.fréttablaðið/gva

„Ég sé ekki betur en varðandi aflaákvörðunina séu stjórnvöld búin að binda okkur í báða skó og þess vegna get ég ekki séð að stjórnvöld séu neitt að fara að auka kvótann,“ segir Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, um niðurstöður úr haust­ralli Hafrannsóknastofnunar.

„Varðandi það hvort bæta eigi við þorskveiðina núna, þá skil ég vel þau sjónarmið. En hins vegar hefur ríkis­stjórnin talað mjög skýrt í þeim efnum. Á fyrstu dögum ríkisstjórnarinnar var ákveðið að fylgja tuttugu prósenta aflareglu og að henni skyldi framfylgt í fimm ár.“

Einar segir vísbendingar haust­rallsins jákvæðar varðandi þorskinn en varast beri að oftúlka þær. „Ef við skoðum þorskinn sérstaklega er ljóst að minnkandi sókn hefur sitt að segja. Veiðidánartalan hefur snarlækkað og við þurfum að fara hér um bil þrjá áratugi aftur í tímann til að sjá svona litla veiðisókn og það á að auðvitað að skila sér. Við sjáum líka ýmis jákvæð teikn. sérstaklega í sambandi við hrygningarstofninn og samsetningu hans. Það ætti að vera mikilvæg forsenda fyrir betri nýliðun á næstunni. Þetta segir mér að ákvörðunin umdeilda árið 2007 var rétt þegar hún var tekin“, segir Einar.

Einar og Jón Gunnarsson, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafa beðið um fund í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis til að ræða niðurstöður haustrallsins.

- shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×