Íslenski boltinn

Umfjöllun: Vandræðalaust hjá U21 á Laugardalsvellinum

Elvar Geir Magnússon skrifar
Jóhann Berg skoraði þrennu í kvöld.
Jóhann Berg skoraði þrennu í kvöld.

U21 landslið Íslands þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að leggja jafnaldra sína frá San Marínó í undankeppni Evrópumótsins í kvöld. Lokatölurnar urðu 8-0 en getumunurinn milli þessara liða er gríðarlegur eins og tölurnar gefa til kynna.

Það voru Kópavogsmennirnir sem sáu um markaskorun en fjögur af mörkunum komu frá Breiðabliksmönnum og þrjú frá HK-ingum.

Aðstæður á Laugardalsvellinum voru langt frá því að vera heillandi. Mikið rok var meðan á leik stóð og þá rigndi eins og enginn væri morgundagurinn.

Ísland fékk sannkallaða óskabyrjun á fjórðu mínútu leiksins þegar Jóhann Berg Guðmundsson átti laglegan sprett, lék á hægri bakvörð gestana og smellti boltanum laglega í netið. Glæsilegt mark hjá Jóhanni.

Íslenska liðið hafði öll völd á vellinum og bætti við tveimur mörkum með mínútu millibili tuttugu mínútum síðar. Fyrst var það Hólmar Örn Eyjólfsson með skalla eftir hornspyrnu Jóhanns Bergs og svo skoraði Rúrik Gíslason eftir sendingu frá Almarri Ormarssyni.

Jóhann Berg skoraði fjórða mark Íslands rétt fyrir leikhlé og minnti það mjög á fyrsta mark leiksins. Flóðgáttirnar voru ekki eins opnar í seinni hálfleiknum en Rúrik Gíslason bætti við marki úr vítaspyrnu og Almarr Ormarsson skoraði sjötta markið eftir sendingu frá Kristni Steindórssyni.

Jóhann Berg innsiglaði þrennu sína rétt fyrir leikslok. Það var svo Blikinn Kristinn sem skoraði áttunda markið gegn vandræðalega slöku liði San Marínó. Hann fylgdi þá eftir sláarskoti frá Andrési Má Jóhannssyni.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og geta gestirnir þakkað það markverðinum Fredrico Casadei sem varði oft á tíðum virkilega vel.

Ísland - San Marínó 8-0

1-0 Jóhann Berg Guðmundsson (4.)

2-0 Hólmar Örn Eyjólfsson (24.)

3-0 Rúrik Gíslason (25.)

4-0 Jóhann Berg Guðmundsson (40.)

5-0 Rúrik Gíslason (víti 76.)

6-0 Almarr Ormarsson (80.)

7-0 Jóhann Berg Guðmundsson (87.)

8-0 Kristinn Steindórsson (90.)

Lið Íslands: Haraldur Björnsson (m), Skúli Jón Friðgeirsson, Hólmar Örn Eyjólfsson, Jón Guðni Fjóluson, Hjörtur Logi Valgarðsson, Guðmundur Kristjánsson (Andrés Már Jóhannsson 46.), Bjarni Þór Viðarsson, Almarr Ormarsson (Jóhann Laxdal 80.), Rúrik Gíslason (f), Jóhann Berg Guðmundsson, Kolbeinn Sigþórsson (Kristinn Steindórsson 73.).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×