Innlent

Lán Novator það stærsta sem gengur upp í Icesave

Sigríður Mogensen skrifar

Lán Landsbankans til Novator Pharma vegna Actavis yfirtökunnar stendur nú í 55 milljörðum. Þetta er stærsta einstaka lánið sem á að ganga upp í Icesave.

Á fyrri hluta ársins 2007 lánaði útibú Landsbankans í Lundúnum Novator Pharma 206 milljónir punda vegna yfirtöku félagsins á Actavis. Var lánið hluti af sambankaláni sem leitt var af Deutche Bank.

Eins og fréttastofa hefur áður greint frá er þetta langstærsta lánið í lánabók útibús Landsbankans í London. Lánið er hluti af þeim eignum bankans sem eiga að ganga upp í skuldir þjóðarinnar vegna Icesave.

Samkvæmt heimildum fréttastofu stendur lánið nú í 260 milljónum punda, með uppsöfnuðum vöxtum. Það eru 55 milljarðar íslenskra króna á gengi dagsins í dag.

Sambankalánið er á gjalddaga á næsta ári.

Heimildir fréttastofu herma að Björgólfur Thor Björgólfsson eigi nú í viðræðum við Deutche Bank um endurfjármögnun á láninu. Þýski bankinn leiðir viðræðurnar fyrir hönd minni kröfuhafa eins og Landsbankans. Gert er ráð fyrir að viðræðum ljúki á næstu þremur til sex vikum og mun niðurstaða þeirra viðræðna hafa mikið um það að segja hvort Landsbankinn þurfi að afskrifa lánið að hluta til eða í heild úr lánabók bankans.

Eins og margoft hefur komið fram er töluverð óvissa um endurheimtur eigna Landsbankans. Hverjar heimturnar verða að lokum skipta miklu máli fyrir íslenskan almenning, því meiri heimtur þýða einfaldlega að skuldabyrði þjóðarinnar vegna Icesave verður minni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×