Enski boltinn

Búið að opna gluggann

Elvar Geir Magnússon skrifar
Mark Hughes, stjóri Manchester City, hefur í nægu að snúast í þessum mánuði.
Mark Hughes, stjóri Manchester City, hefur í nægu að snúast í þessum mánuði.

Félagaskiptaglugginn hefur verið opnaður og verður opinn þar til klukkan 17:00 mánudaginn 2. febrúar. 1. febrúar verður á laugardegi og því var lokun gluggans breytt.

Nú þegar er búið að ganga frá ýmsum kaupum, þar á meðal eru kaup Real Madrid á miðjumanninum Lassana Diarra frá Portsmouth. Alls var 150 milljónum punda eytt meðal enskra úrvalsdeildarliða í leikmenn í janúar 2008.

Það er met sem búist er við að slegið verði í ár. Reiknað er með að Manchester City fari hamförum á leikmannamarkaðnum en Mark Hughes fær að eyða peningum arabískra eiganda félagsins eins og hann vill.

BBC hefur tekið saman ummæli knattspyrnustjóra í deildinni sem gefa vísbendingar um hverju búast megi við.

Arsenal: Arsene Wenger vonast til að kaupa reynslumikinn leikmann í janúar. Þar er aðallega horft til miðjusvæðisins þar sem breiddin er lítil.

Aston Villa: Martin O'Neill setur stefnuna á að styrkja sinn leikmannahóp.

Blackburn: Ætlar að leggja áherslu á að halda Roque Santa Cruz sem orðaður er við hóp af liðum.

Chelsea: Setur stefnuna á að auka breidd sína, þá helst sóknarlega þar sem vantar varamann fyrir Anelka og Drogba.

Everton: David Moyes reiknar ekki með að geta gert stóra hluti á leikmannamarkaðnum. Hann mun hinsvegar leita leiða til að styrkja sinn hóp og horfir á lánssamninga og frjálsa sölu í þeim efnum.

Liverpool: Rafael Benítez býst ekki við að bæta neinu við sinn hóp. Hann segir liðið einfaldlega vera nægilega sterkt.

Manchester City: Mun vafalítið vera virkasta félagið á leikmannamarkaðnum enda buddan ansi þykk. Mark Hughes segir að félagið muni þó vanda valið.

Manchester United: Ætlar engan að kaupa í janúar. Sir Alex Ferguson er ánægður með það sem er til staðar.

Newcastle: Ætlar ekki að selja markvörðinn Shay Given.

Portsmouth: Tony Adams fær peninga til að eyða í janúar og segist vera löngu búinn að ákveða hvaða leikmenn liðið þurfi.

Stoke: Tony Pulis vill bæta við þremur leikmönnum í janúar en ólíklegt er að stjórnin samþykki það. Hinsvegar er líklegt að eitthvað nýtt andlit sjáist í búningi Stoke.

Tottenham: Stefnir í að styrkja sig með vinstri vængmanni í janúar. Stewart Downing er nefndur til sögunnar en Middlesbrough vill halda honum.

West Ham: Er talið líklegra til að selja leikmenn en kaupa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×