Íslenski boltinn

Jónas Guðni: Mætum vel undirbúnir til leiks

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jónas Guðni Sævarsson í leik með KR.
Jónas Guðni Sævarsson í leik með KR. Mynd/Daníel

Jónas Guðni Sævarsson, leikmaður KR, segir að sínir menn hafi undirbúið sig vel fyrir leik liðsins gegn Stjörnunni í kvöld.

KR er í þriðja sæti deildarinnar með 20 stig en Stjarnan í því fjórða með nítján en á leik til góða á hin toppliðin. FH er þó langefst með 27 stig og því leikurinn í kvöld mikilvægur upp á framhaldið að gera.

„Við áttum ágætisleik gegn Blikum fyrr í vikunni og við ætlum vonandi að halda uppi sömu stemningu og var í seinni hálfleik þar og náum að keyra á Stjörnuliðið af miklum krafti," sagði Jónas Guðni í samtali við Vísi.

„Við höfum undirbúið okkur vel fyrir leikinn og ræddum það í gær hvernig við munum leggja leikinn upp. Logi (Ólafsson, þjálfari KR) hefur skoðað Stjörnuliðið vel og við þurfum að koma í veg fyrir að þeir nýti sér þann mikla hraða sem þeir búa yfir. Þeir hafa verið að refsa öðrum liðum með því að sækja hratt á andstæðinginn enda með gríðarlega snögga leikmenn. En við verðum vonandi tilbúnir fyrir þann slag."

Hann segir þó þetta ekki vera úrslitaleik um hvort liðið nái að fylgja FH-ingum eftir í toppslagnum. „Það er enn það mikið eftir af mótinu að það sé ekki hægt að tala um þetta sem úrslitaleik. En auðvitað er hann afar mikilvægur upp á framhaldið að gera."

Jónas Guðni hefur að undanförnu verið orðaður við Halmstad í Svíþjóð og mun þjálfari liðsins vera á leiknum í kvöld til að fylgjast með honum.

„Þetta á að vera lokaúttekt þeirra á mér og finnst mér reyndar þetta hafa tekið gríðarlega langan tíma allt saman. En þeir eru greinilega að vanda valið og við sjáum til hvað gerist eftir þennan leik."

„En ég er lítið að stressa mig á þessu máli. Það er það mikið að gerast heima og ég hef alltaf sagt að það þyrfti mikið til að ég myndi flýja land á miðju tímabili. Ég myndi því ekki svekkja mig á þessu ef ég fæ ekki samning."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×