Íslenski boltinn

Umfjöllun: Stefán Logi sá rautt í sigri KR á Víði

Elvar Geir Magnússon skrifar
Stefán Logi fékk rauða spjaldið í kvöld og verður í banni gegn Val í Pepsi-deildinni á laugardag.
Stefán Logi fékk rauða spjaldið í kvöld og verður í banni gegn Val í Pepsi-deildinni á laugardag.
KR-ingar áttu ekki í teljandi vandræðum með Víði í Garðinum í kvöld og unnu 2-0 sigur. Þeir voru einum færri nánast allan seinni hálfleikinn eftir að markvörðurinn Stefán Logi Magnússon fékk að líta rauða spjaldið. Víðismönnum gekk illa að skapa sér færir þrátt fyrir liðsmuninn.

Björgólfur Takefusa var í aðalhlutverki í fyrri hálfleiknum. Hann náði snemma leiks að koma knettinum í netið en aðstoðardómarinn flaggaði til merkis um rangstöðu. Þá var hann nálægt því að skora um miðjan hálfleikinn þegar varnarmaður heimaliðsins bjargaði ævintýralega á marklínu.

Á 43. mínútu kom loks markið eftir mikinn vandræðagang í vörn Víðismanna. Björgólfur fékk nægan tíma til að athafna sig með knöttinn áður en hann skoraði. Reyndist þetta eina markið í fyrri hálfleiknum.

Það var ekki mikið búið af seinni hálfleik þegar Stefán Logi fékk að líta rauða spjaldið. Stefán rauk út úr markinu og braut á sóknarmanni Víðis sem var að sleppa í gegn. Þorvaldur Árnason dómari sá ekki annan kost en reka Stefán af velli og fór Atli Jónasson í markið. Atli hafði þó ekki mjög mikið að gera þar sem KR-ingar héldu öllum völdum á vellinum þrátt fyrir að vera tíu gegn ellefu.

KR fékk nokkur virkilega góð færi í seinni hálfleiknum. Það er ótrúlegt að Atli Jóhannsson hafi ekki náð að skora en hann fékk tvö dauðafæri en tókst ekki að hitta á rammann. Víðir fékk í raun aðeins eitt teljandi færi í seinni hálfeiknum en þá skaut Björn Björnsson yfir.

Varamaðurinn Guðmundur Pétursson innsiglaði síðan 2-0 sigur KR í uppbótartíma, hann slapp einn í gegn og lék á markvörðinn Rúnar Daníelsson áður en hann renndi knettinum í tómt markið.

Bikarmeistarar KR unnu því 2-0 sigur sem var þó enn öruggari en tölurnar gefa til kynna. Víðismenn hafa verið í tómu basli í 2. deildinni í sumar og ollið miklum vonbrigðum. Það sást vel í kvöld að KR var alltof stór biti fyrir þá.

Eftir þennan leik er þó ljóst að Stefán Logi verður í leikbanni í næsta leik KR þegar Atli Eðvaldsson mætir með Valsmennina sína í Frostaskjólið. Þá er óvíst með varnarmanninn Mark Rutgers sem þurfti að fara af velli í fyrri hálfleiknum vegna meiðsla.

Víðir - KR 0-2

0-1 Björgólfur Takefusa (43.)

0-2 Guðmundur Pétursson (92.)

Rautt spjald: Stefán Logi Magnússon (KR)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×