Innlent

Umhverfisráðherra hrygg yfir dauða Lífar

Valur Grettisson skrifar
Kolbrún Halldórsdóttir og Líf á góðri stundu.
Kolbrún Halldórsdóttir og Líf á góðri stundu.

„Mér finnst leiðinlegt að heyra þetta," sagði Kolbrún Halldórsdóttir, fráfarandi þingmaður og umhverfisráðherra. Henni var brugðið þegar henni voru færðar fregnir af dauða hreindýrskálfsins Lífar.

Það var um miðjan apríl sem Kolbrún fór að Sléttu á Reyðarfirði og heimsótti Líf og bjargvætt hennar, húsfreyjuna Dagbjörtu Briem Gísladóttur.

Ástæða heimsóknarinnar var rimma Umhverfisstofnunar og Dagbjartar, þar sem kálfinum var hótað lífláti, yrði ekki sótt um tilskilin leyfi. Það mál leystist hinsvegar farsællega að lokum.

„Hvað getur maður annars sagt, þetta er auðvitað bara gangur lífsins," sagði Kolbrún sem lætur vel af heimsókn sinni að Sléttu. Henni sýndist Líf hafa það afskaplega gott á bænum og sjálfri þótti Kolbrúnu vænt um að fá að sjá kálfinn.

Kolbrún veltir því fyrir sér hvort það halli sorglega mikið á dýrin í samspili manna og náttúru.

„Erum við búin að þrengja svona mikið að lífsskilyrðum þeirra að kálfar eins og Líf þurfa að alast upp hjá mönnum?" velti Kolbrún fyrir sér.

Spurð hvernig hennar upplifun af Líf hafi verið svaraði Kolbrún því að hún hafi verið dásamleg.

„Ungviðið er alltaf dásamlegt. Hún virtist líka mjög hænd að fólki en samt var hún ekki svipt neinu frelsi," sagði Kolbrún um stutt en gott líf Lífar. Kolbrún bætti svo við að hjónin á Sléttu hafi einnig átt yndislegan íslenskan fjárhund.

„En já, ég á góðar minningar um Líf og hjónin á Sléttu," sagði Kolbrún sem samhryggist Dagbjörtu vegna dauða Lífar.




Tengdar fréttir

Líf drapst úr ofsahræðslu - verður jörðuð síðdegis

Hreindýrakálfurinn Líf drapst í gær. Hún verður grafin síðdegis í dag. Við krufningu kom í ljós að það var hvítvöðasýki sem dró hana til dauða. Hvítvöðvasýki er í raun ofsahræðsla. Bóndakonan Dagbjört Briem Gísladóttir var miður sín þegar Vísir ræddi við hana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×