Enski boltinn

Bryan Robson gagnrýnir viðbrögð Ronaldo

AFP

Bryan Robson, fyrrum fyrirliði Manchester United, gagnrýnir viðbrögð Cristiano Ronaldo eftir að honum var skipt af velli í sigrinum á Manchester City um helgina.

Ronaldo fór í fýlu þegar honum var skipt út af eftir klukkutímaleik og sjónvarpsmyndavélarnar sýndu hann hrista höfuðið með skeifu á munninum það sem eftir lifði leiks.

Sir Alex Ferguson varði viðbrögð Ronaldo í viðtölum eftir leikinn og sagði hann hafa verið vonsvikinn að hafa ekki fengið að spila meira, en fyrrum fyrirliðinn er ekki eins tilbúinn að fyrirgefa fýluna.

"Leikmenn eiga ekki að bregðast svona við ákvörðunum stjórans, ekki síst þegar hún kemur frá mönnum eins og Alex Ferguson. Hann veit hvað er leikmönnum fyrir bestu og hann verður að halda mönnum sínum ferskum. Mér fannst Ronaldo senda röng skilaboð til krakka sem horfðu á leikinn um allan heim," sagði Robson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×