Enski boltinn

Sunderland vann síðast á Anfield árið 1983

Djibril Cisse verður klár í slaginn með Sunderland gegn sínum gömlu félögum í kvöld
Djibril Cisse verður klár í slaginn með Sunderland gegn sínum gömlu félögum í kvöld Nordic Photos/Getty Images

Þrír leikir eru á dagskrá í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Liverpool þarf nauðsynlega á sigri að halda eftir 2-0 skell gegn Middlesbrough á dögunum.

Liverpool er í þriðja sæti deildarinnar með 55 stig líkt og Chelsea sem er í öðru sætinu, en meistarar Manchester United hafa 62 stig í toppsætinu og eiga leik til góða.

Ekki er hægt að segja að sagan sé á bandi Sunderland fyrir erfiðan útileik í kvöld, því Liverpool hefur unnið síðustu fimm leiki liðanna í úrvalsdeildinni og hefur ekki fengið á sig eitt einasta mark í þessum viðureignum.

Þá hefur Sunderland ekki unnið leik á Anfield síðan það vann 1-0 sigur þar árið 1983, en Svörtu Kettirnir hirtu síðast stig af Liverpool í deildinni á Leikvangi ljóssins í desember árið 2002.

Portsmouth-Chelsea

Hermann Hreiðarsson og félagar hafa ekki spilað leik í tíu daga og mæta því væntanlega ferskir til leiks gegn Chelsea í kvöld.

Ekki mun liðinu veita af því Chelsea hefur unnið fleiri leiki á útivelli í vetur en Portsmouth samanlagt heima og úti.

Chelsea hefur unnið alla þrjá leiki sína síðan Guus Hiddink tók við af Luiz Felipe Scolari, en Portsmouth hefur hirt fjögur stig af sex mögulegum undir stjórn afleysingastjórans Paul Hart.

Portsmouth náði sínu fyrsta stigi af Chelsea í sögu úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð þegar liðin gerðu 1-1 jafntefli á fratton Park, en Chelsea hefur unnið hinar tíu viðureignir liðanna í deildinni.

Portsmouth vann síðast sigur á Chelsea í efstu deild á annan í jólum árið 1957. Þá vann Portsmouth 3-0 en síðan hefur liðið ekki fagnað sigri í 23 deildarleikjum.

West Brom-Arsenal

Arsenal getur í kvöld náð þeim vafasama árangri að verða fyrsta liðið í sögu úrvalsdeildarinnar til að gera fimm 0-0 jafntefli í röð.

Botnlið West Brom þarf sárlega á stigum að halda í kvöld en liðið hefur ekki spilað markalausan leik síðan það sótti Bolton heim þann 30. ágúst í fyrrasumar - fyrir 24 leikjum síðan.

Arsenal hefur ekki tapað í síðustu þrettán leikjum í deildinni og West Brom er án sigurs í síðustu fimm leikjum. Þrír þeirra voru töp.

Arsenal hefur unnið tvo síðustu leiki sína gegn West Brom í deildinni, en það voru heimaleikir. Síðast þegar liðið sótti West Brom heim á Hawthornes, tapaði liðið 2-1. Það var í október árið 2005.

Arsenal er einum leik frá því að jafna félagsmetið yfir flest jafntefli í röð. Liðið gerði fimm jafntefli í röð frá mars til apríl árið 1961.

Arsenal er með 18 stigum minna í deildinni en á sama tímapunkti á síðustu leiktíð, en er annað tveggja liða sem eru taplaus á árinu 2009. Hitt liðið er Manchester United.

Leikir kvöldsins:

Portsmouth-Chelsea 19:45 beint á Sport 3

West Brom-Arsenal 19:45 beint á Sport 4

Liverpool-Sunderland 20:00 beint á Sport 2

 

.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×