Innlent

Ásta geri grein fyrir alvarlegum ásökunum sínum

Ögmundur Jónasson og Ásta Möller.
Ögmundur Jónasson og Ásta Möller.

Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra sagði á Alþingi fyrir stundu að hann færi fram á það að Ásta Möller þingmaður gerði grein fyrir alvarlegum ásökunum sínum gagnvart læknum í landinu. Ögmundur sagðist ætla að ræða ummæli Ástu um MS lyfið Tysabri á fundi heilbrigðisnefndar á miðvikudaginn.

Í fréttum Stöðvar 2 á laugardaginn sagðist Ásta hafa heyrt af því að MS sjúklingum væri mismunað á grundvelli menntunar og búsetu við úthlutun á lyfinu Tysabri. Þeir sjúklingar sem notað hafa lyfið hafa náð góðum árangri en fáir fá lyfið þar sem það er dýrt.

Ögmundur sagði að þetta væru alvarlegar ásakanir hjá Ástu gagnvart læknum og stjórnendum Landspítalans. Hann sagði að hún þyrfti sem þingmaður að færa rök fyrir þessum alvarlegu ásökunum sínum.

Ásta sagði að þessar upplýsingar hefði hún úr samtölum sínum við sjúklinga. Til hennar hefði meðal annars leitað ung kona sem hefði spurt um það atriði er varðar menntun sjúklinga. „Ég sem fulltrúi sjúklinga hlýt að mega varpa fram þeirri spurningu um hvernig þetta er ákveðið."

Ögmundur sagði að ef uppi væru efasemdir eða grunsemdir um að læknar og Landsspítalinn væru að mismuna fólki á þessum grundvelli þyrfti að rannsaka það mál. Það væri einnig alvarlegur hlutur að fara með rangt mál og setja fram ásakanir og dylgjur í órannsökuðu máli sem þessu.


Tengdar fréttir

Klínísk sjónarmið ráða því hverjir fá Tysabri lyfið

Björn Zoëga, framkvæmdastjóri lækninga á Landspítala, segir læknisfræðileg sjónarmið og niðurstöður rannsókna ráða því hvaða sjúklingar fái Tysabri meðferð á spítalnum. Ein aðalástæðan fyrir töf eru dauðsföll eftir gjöf lyfsins erlendis. Lyfið er nýtt og hefur hamlandi áhrif á MS sjúkdóminn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×