Íslenski boltinn

Atli: Vafaatriðin féllu með þeim

Ómar Þorgeirsson skrifar
Atli Eðvaldsson.
Atli Eðvaldsson. Mynd/Arnþór

Atli Eðvaldsson þjálfari Vals var að vonum svekktur með 1-3 tapið gegn KR í VISA-bikarnum á Vodafonevellinum í kvöld eftir að Valur hafði leitt leikinn 1-0 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var mjög skrautlegur og mikið af vafaatriðum og Atla fannst þau falla heldur með KR-ingum.

„Við erum óneitanlega mjög svekktir með að vera fallnir úr þessarri keppni því þetta var svona okkar möguleiki á bikar í sumar. Mér fannst við vera að spila nokkuð vel á köflum en það er stundum erfitt þegar liðið manns er ef til vill búið að vera að ganga í gegnum smá erfiðan kafla að lenda í því að vafaatriði falli með andstæðingnum. Það brýtur liðið niður og menn ná ekki að gíra sig aftur upp.

Í fyrsta lagi fannst mér rauða spjaldið á Marel Jóhann vera rangur dómur þar sem Baldur Ingimar hefði frekar átt að fá gula spjaldið fyrir brotið á Óskari Erni en ekki Marel Jóhann.

Í öðru lagi fannst mér vítaspyrnudómurinn ekki vera réttur og þetta eru lykilatriði í þessum leik," segir Atli.

Valsmenn þurfa nú að einbeita sér að því að klifra upp stigatöfluna á deildinni eftir að vera fallnir út úr bikarnum og Atli segir markmiðin þar vera skýr.

„Við ætlum að vinna okkur þátttökurétt í Evrópukeppninni næsta sumar og það er því áfram að miklu að keppa hjá okkur og við munum leggja allt í sölurnar til þess að ná því markmiði. Valur á að vera að keppa í Evópukeppninni og við verðum því að ná því fram," segir Atli ákveðinn.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×