Íslenski boltinn

Logi: Verð áfram með KR

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Logi Ólafsson.
Logi Ólafsson. Mynd/Anton

„Ballinu lauk í dag, því miður. Það hefði verið gaman að hafa smá spennu í lokaumferðinni," sagði nokkuð svekktur þjálfari KR, Logi Ólafsson, eftir frábæran sigur hans liðs á Stjörnunni. Sigurinn dugði aftur á móti ekki til.

„Það var ekki við því að búast að FH myndi glutra þessari forystu niður en við vildum í það minnsta ekki hafa okkar á hreinu ef þeir myndu misstíga sig."

KR stendur uppi titlalaust en komst í undanúrslit í bikar og er svo gott sem búið að tryggja annað sætið í deildinni.

„Ég er nokkuð sáttur með sumarið. Ef við horfum á stigin þá erum við að bæta okkur. Sumarið í heildina var ágætt en við erum súrir og svekktir yfir nokkrum leikjum. Það var vont að gera jafntefli við Stjörnuna í Garðabæ og Þrótt hér heima. Svo töpum við gegn Val hér heima þó svo við séum mun betri. Þarna eru glötuð stig sem hefðu sett okkur í blóðuga baráttu við FH. Við ætlum að reyna að velgja þeim enn betur undir uggum næsta sumar," sagði Logi sem á ár eftir af samningi sínum við KR.

„Eins og staðan er í dag á ég ekki von á neinu öðru en að ég verði hérna áfram."

Það hefur oft farið illa með KR hvað það eru miklar mannabreytingar á milli ára. Logi á ekki von á að slíkt gerist að þessu sinni.

„Ég vona að þessu sinni fáum við að halda mannskapnum. Það er óvissa með Andre Hansen og markvarðarstöðuna en við leysum það væntanlega," sagði Logi en Gunnleifur Gunnleifsson er sterklega orðaður við endurkomu í Vesturbæinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×