Innlent

Þunglyndi eykst í kreppunni

Haukur Sigurðsson sálfræðingur segir brýnt að stórefla fyrirbyggjandi sálfræði- og félagsþjónustu.
Haukur Sigurðsson sálfræðingur segir brýnt að stórefla fyrirbyggjandi sálfræði- og félagsþjónustu.
Kreppan hefur leitt til þess að tilfellum um alvarlegt þunglyndi hefur fjölgað. Einnig má merkja aukningu í sjálfsvígshugsunum hjá þeim sem verst eru haldnir, segir sálfræðingur, sem telur brýnt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða.

Haukur Sigurðsson sálfræðingur segir að síðan kreppan skall á hafi orðið vart við aukningu í eftirspurn á þjónustu. „Og þá erum við aðallega að tala um kvíðavandamál og þunglyndisvandamál," segir Haukur.

Almennt er vandinn ekki á alvarlegu stigi, en þó eru dæmi um annað. „Jú, ég er að sjá aukningu á þunglyndi sem er af alvarlega taginu þar sem vonleysi og félagsleg einangrun er orðin mikil," segir Haukur. Hann segir að tengt þunglyndinu megi merkja aukningu í sjálfvígshugsunum og þess háttar.

Rannsóknir sýna að vanlíðan fullorðinna hefur mikil áhrif á heimilislífið og uppeldi barna. Finnar komust að því vanræksla barna á kreppuárunum þar í landi leiddi til þess að fjöldi fólks þurfti að glíma við þunglyndi á fullorðinsárum og margfaldaðist fjöldi ungra örorkuþega um áratug eftir harðindatímann.

Með þetta í huga telur Haukur brýnt að stórefla fyrirbyggjandi sálfræði- og félagsþjónustu bæði við börn og fullorðna. Mikilvægt sé einnig að ríkisvaldið taki ákvörðun um að greiða niður þjónustu sálfræðinga á stofu. „Og ef við ættum að setja eitthvað í fyrsta sæti ættum við að styðja við foreldrana. Því það kemur ekkert í staðinn fyrir heilbrigt og eðlilegt heimilislíf og gott uppeldi," segir Haukur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×