Erlent

Milljón flúði Morakot

MYND/AP

Um ein milljón manna þurfti að yfirgefa heimili sín í strandhéruðum Kína í gær og í nótt þegar fellibylurinn Morakot reið þar yfir. Morakot náði um 120 kílómetra hraða í mestu vindhviðunum og eyðilagði hús og færði akurlendi á kaf. Íbúar á ströndinni sluppu þó flestir vel en tilkynnt hefur verið um eitt dauðsfall í kjölfar fellibylsins sem nú hefur dregið úr styrk sínum og kallast nú hitabeltisstormur.

Tólf létust hinsvegar á eyjunni Tævan þegar Morakot gekk yfir í gær og níu eru látnir í Japan og tíu er saknað eftir mikil flóð og aurskriður í kjölfar annars fellibyls, Etau, sem gekk á land á vesturströnd landsins í gær. Kínverjar fluttu um 470 þúsund manns frá Zehjang héraði áður en fellibylurinn gekk á land og svipaður fjölldi þurfti að flýja frá Fujian héraði að sögn Kínversku fréttastofunnar Xinhua.

Fjögurra ára gamall drengur lést í fárviðrinu þegar hús sem hann var í hrundi til grunna. Björgunarmenn kanna nú svæðin sem verst urðu úti og fréttir berast af heilu hverfunum þar sem aðeins trjátopparnir eru sýnilegir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×