Íslenski boltinn

Gummi Ben óvænt í myndinni hjá Val

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gummi Ben aftur á leið í rautt?
Gummi Ben aftur á leið í rautt? Mynd/Daníel

Þjálfaramál Vals halda áfram að taka nýja stefnu en nú er kominn í myndina afar óvæntur kandidat. Sá heitir Guðmundur Benediktsson.

Þrálátur orðrómur er í gangi þess efnis að Valsmenn séu í viðræðum við Guðmund og hafi verið alla vikuna.

Samkvæmt óstaðfestum heimildum óskuðu Valsmenn eftir því við KR að fá leyfi til þess að ræða við Guðmund síðastliðinn mánudag. Sömu heimildir herma að KR-ingar hafi veitt Val það leyfi.

Hvorki náðist í forráðamenn KR né Vals áðan. Forráðamenn Vals hafa þess utan ekki gefið færi á sér síðan þeir létu Willum róa. Þó er búið að reyna stíft í rúman sólarhring.

Guðmundur hefur heldur ekki svarað símtölum í allan dag.

Guðmundur lék með Val síðustu ár en gekk aftur í raðir KR fyrir þetta sumar. Svo gæti farið að sú dvöl yrði í styttri kantinum.

Þess má svo geta að næsti leikur Vals í deildinni eftir leikinn í kvöld er einmitt gegn KR þann 11. júlí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×