Innlent

Gröndalshús verður gert upp og flutt

Ekki liggur fyrir hvert húsið verður flutt.
Ekki liggur fyrir hvert húsið verður flutt.
„Þetta hús skiptir miklu fyrir sögu Reykjavíkur. Það er þarft að heiðra minningu Benedikts Gröndal og alls sem hann stóð fyrir varðandi bókmenntir og vísindi, og eins hefur húsið mjög sérstaka þýðingu í byggingarsögulegu tilliti. Því er mjög ánægjulegt að húsinu verði gert hátt undir höfði,“ segir Svanhildur Konráðsdóttir, sviðsstjóri á menningar- og ferðamálasviði Reykjavíkurborgar.

Gröndalshús við Vesturgötu verður gert upp sem hluti af atvinnu­átaksverkefninu Völundarverk á vegum borgarinnar. Í kjölfarið verður settur aukinn kraftur í að finna húsinu lóð nálægt núverandi staðsetningu, að sögn Svanhildar.

Húsið hefur verið í umsjá Minjasafns Reykjavíkur síðan 2006. Upphaflega stóð til að það yrði flutt í Árbæjarsafnið. Samkvæmt samþykkt menningar- og ferðamálasviðs flyst eignarhald hússins nú frá Minjasafninu yfir til framkvæmda- og eignasviðs borgarinnar. Endurgerð hússins fer fram í verkefninu Völundarverk, þar sem atvinnulausum fagmönnum er boðið upp á námskeið og tímabundna vinnu við að gera upp gömul hús.

Að sögn Svanhildar verður ytra byrði hússins endurgert við Vesturgötu, til að hægt verði að flytja það á öruggan hátt. Endurgerðin fari svo að mestu leyti fram á nýjum stað. Ekki liggi fyrir hvar húsinu verði fundin lóð, en til greina komi að flytja það vestur á Granda.- kg


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×