Erlent

Hafa gaman af álfatrú Íslendinga

Óli Tynes skrifar
Álfar hafa öldum saman búið í Grásteini á Áalftanesi.
Álfar hafa öldum saman búið í Grásteini á Áalftanesi. Mynd/ Ásgeir Helgason

Fjölmiðlar á Norðurlöndunum hafa fjallað talsvert um álfatrú Íslendinga undanfarna daga. Tilefnið er könnun sem Terry Gunnell prófessor við Háskóla Íslands gerði á þessari trú.

Samkvæmt henni telja fimmtíu og fjögur prósent Íslendinga líklegt eða mögulegt að álfar séu til. Aðeins þrjátíu og tvö prósent telja það ómögulegt eða ólíklegt.

Fjölmiðlarnir fjalla almennt hlýlega um þetta fyrirbæri.

Í umfjöllun sinni segir Berlingske Tidende frá því að í að minnsta kosti þrem tilfellum hafi hin ríkisrekna Vegagerð  breytt vegastæðum til þess að styggja ekki álfabyggð.

Blaðið ræðir við Viktor Arnar Ingólfsson upplýsingafulltrúa hjá Vegagerðinni sem sjálfur efast um álfana.

Hann segir hinsvegar að Íslendingar meti arf forfeðranna. Ef munnmæli hafi gengið mann fram af manni um að bölvun hvíli á einhverjum stöðum eða þá að yfirnáttúrlegar verur búi í einhverjum kletti, þá sé litið á það sem menningararf.

Biskup jákvæður

Berlingske Tidende ræðir einnig við Karl Sigurbjörnsson biskup, þar sem áttatíu prósent Íslendinga eru í þjóðkirkjunni.

Herra Karl telur ekki að neinir áresktrar séu milli álfatrúar og kristinnar trúar. Álfatrú sé hluti af þjóðarsál Íslendinga og hún sé alveg skaðlaus. Engin ástæða sé fyrir kirkjuna að taka afstöðu gegn henni.

Biskupinn segir frá ömmu sinni sem hafi verið góð og kristin manneskja. Hún hafi sagt sögur frá æsku sinni í sveitinni þar sem menn áttu að gæta sín í grennd við bústaði álfa og huldufólks.

Trúa á stokka og steina og Guð

Terry Gunnell segir í samtali við danska blaðið að Íslendingar geri skýran greinarmun á álfatrú og kristinni trú.

Annarsvegar sé álfatrúin sem tengist náttúrunni og landslaginu. Hinsvegar sé trúin á hinn kristna Guð allsherjar.

Gunnell segir að Íslendingar eigi ekki í neinum vandræðum með að trúa á hvorttveggja en þeir blandi því ekki saman. Jesús hafi ekkert með álfana að gera.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×