Innlent

Fimmtíu milljónir sparast við sýnatökur

Frá undirritun samningsins. Stefán Eiríksson lögreglustjóri, Ragnar Þór Jónson forstjóri Öryggismiðstöðvarinnar og Jón Magnússon skrifstofustjóri í Dómsmálaráðuneytinu.
Frá undirritun samningsins. Stefán Eiríksson lögreglustjóri, Ragnar Þór Jónson forstjóri Öryggismiðstöðvarinnar og Jón Magnússon skrifstofustjóri í Dómsmálaráðuneytinu.
Nýtt útboð Ríkskaupa á blóðsýnatökum fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu mun að öllum líkindum skila 50 milljóna króna sparnaði á ári. Öryggismiðstöðin bauð best í verkið og hlýtur fyrirtækið samninginn í eitt ár en hann má framlengja þrisvar sinnum eitt ár í senn.

Kostnaður dómsmálaráðuneytisins vegna þessa liðs hefur verið um það bil 100 m.kr. á ári á höfuðborgarsvæðinu og því er um að ræða 50% lægri kostnað að því er fram kemur í tilkynningu frá Ríkiskaupum.

„Markmið með sýnatökum og rannsóknum á þeim er að fá úrskurð um það hvort áfengi, lyf og/eða fíkniefni í ólöglegu magni sé til staðar," segir ennfremur í tilkynningunni. „Skaðleg áhrif áfengis á hæfni ökumanns eru vel þekkt. Síðustu ár hefur aukin athygli beinst að akstri undir áhrifum fíkniefna með tilliti til umferðaröryggis." Hins vegar er mun erfiðara að sanna hvort ökumaður sé undir áhrifum fíkniefna og lyfja en áfengis, þar sem ekki er unnt með einföldum hætti að sýna fram á það á staðnum að viðkomandi sé undir áhrifum efna segir einnig.

Þá kemur fram að blóðsýnataka sé framkvæmd af lækni, hjúkrunarfræðingi eða lífeindafræðingi. „Hér er um að ræða framúrskarandi árangur og gott dæmi um það hvernig hægt er að hagræða í rekstri þ.e. fá sömu eða betri þjónust fyrir verulega minni fjármuni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×