Erlent

Stúlkubarn lést eftir að hún var greind ranglega með svínaflensu

Tveggja ára stúlkubarn í Norfolk í Bretlandi lést fyrr í vikunni af völdum heilahimnubólgu. Foreldrar stúlkunnar segja að hún hafi tvívegis verið greind ranglega með svínaflensu og því ekki meðhöndluð rétt.

Sky fréttastofan hefur eftir móður stúlkunnar að hún hafi hringt á læknavaktina bresku og stúlkan þá greind með svínaflensu án læknisskoðunar. Foreldrunum var þá sagt að hafa hana heima í tvo sólahringa og hringja aftur ef henni versnaði. Þegar hitinn hækkaði hringdi móðir stúlkunnar á neyðarlínuna og komu þá sjúkraliðar sem einnig töldu stúlkuna þjást af svínaflensu. Stelpunni var gefið flensulyfið Tamiflu og sjúkrabíll afturkallaður.

Þegar stúlkan varð enn veikari var hún loks flutt á sjúkrahús þar sem hún lést. Samtök aðstandenda fólks sem fengið hefur heilahimnubólgu telja að skoða þurfi hvert tilfelli vel og ekki greina svínaflensu án nánari athugunar. Annars geti harmleikir sem þessi orðið fleiri.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×