Erlent

Svínaflensan: Tveggja ára bandarískt barn látið

Guðjón Helgason skrifar

Bandarísk heilbrigðisyfirvöld tilkynntu nú fyrir stundu um fyrsta dauðsfall af völdum svínaflensu í Bandaríkjunum. Um er að ræða tæplega tveggja ára barn í Texas.

Þetta er fyrsta staðfesta dauðsfall af völdum flensunnar utan Mexíkó þar sem hún greindist fyrst. Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa staðfest að sextíu og fimm tilfelli flensunnar hafa greinst þar í landi og í flestum tilvikum um væg einkenni að ræða. Mexíkósk heilbrigðisyfirvöld segja grun um að nærri hundrað og sextíu hafi látist af völdum flensunnar þar í landi.

Eitthvað kann það þó að breytast að mati sérfræðinga þar sem mexíkósk yfirvöld hafa fyrirskipað ítarlegri rannsókn á sýnum úr látnum til að skera úr um hvort fólkið hafi látist af völdum svínaflensunnar eða annars konar flensu eða veikinda.

Frönsk stjórnvöld munu í dag fara þess á leit við Evrópusambandið að það fresti öllu flugi frá ríkjum sambandsins til Mexíkó vegna fuglaflensunnar. Heilbrigðisráðherra Frakklands segir að þess verði óskað formlega á fundi heilbrigðiráðherra ESB ríkja sem haldinn verður í Lúxembúrg síðar í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×